Skoðun

Örlítil athugasemd

Sverrir Hermannsson skrifar um bókina Umsátrið.

í „Umsátri" Styrmis Gunnarssonar, fyrrv. ritstjóra Morgunblaðsins, segir svo á bls. 208: „Síðla vetrar 1998 urðu miklar sviptingar í Landsbanka Íslands. Bankastjórarnir voru reknir."

Að vísu sögðu þeir upp störfum sínum. Sá sem hér heldur á penna var „rekinn" aðallega vegna þess, að hann hafði neitað Davíð Oddssyni um þann greiða að hafa æru og atvinnu af Styrmi Gunnarssyni. Þá ósk Davíðs flutti Kjartan Gunnarsson, varaformaður bankaráðs Landsbankans, Sverri bankastjóra að morgni dags, bláþústaður mjög. Kvaðst Kjartan ekki fram bera þá ósk við bankastjórann heldur fyrrverandi framámann og trúnaðarmann Sjálfstæðisflokksins. Foringi sinn, Davíð, væri búinn að fá sig fullsaddan af þjónustu Styrmis við Jón Baldvin Hannibalsson og hefði komizt á snoðir um að skuldastaða Styrmis við Landsbankann væri slík, að hægur vandi væri að segja skuldunum upp og ganga að Styrmi og gera hann gjaldþrota. Hvar Davíð hefir komizt að því trúnaðarmáli er hægur vandi að geta sér til um.

Hvaðan brottrekstrareinkunnin er fengin er einnig auðvelt að sjá enda sat Styrmir ritstjóri vikulega slímusetu á fundum árum saman með Finni útherja og Helga horska. Það hefði verið fróðlegt að vera þar fluga á vegg og heyra lýsingar framsóknarmannanna á viðskiptum sínum við bankamálaráðherrann Valgerði frá Lómatjörn. T.d. kaup þeirra á helmings hlut Landsbankans í Vátryggingarfélagi Íslands fyrir kr. 6,8 milljarða, sem þeir síðan seldu tæpum þrem árum síðar fyrir kr. 31,5 milljarða.

Þá hefir það verið einkar upplýsandi fyrir hinn fréttaþyrsta ritstjóra að hlusta á frásögn fjáraflamannanna af því þegar þeir tóku að sér, óbeðið og umboðslaust, ásamt Þórólfi Sauðkrækingi, að annast fjárreiður Samvinnutrygginga að upphæð kr. 30 milljarðar.

Þá hefir Helgi horski vafalaust verið til frásagnar um sölu Halldórs Ásgrímssonar á Ísl. aðalverktökum til formanns einkavæðingarnefndar, Jóns Sveinssonar, fyrir 3,6 milljarða. Helgi sat fund tilbjóðenda og átti Jón Sveinsson og co. ekki hæsta tilboðið, en Helgi tilkynnti þá skyndilega, að málið þarfnaðist ekki umræðu, því „Halldór er búinn að ákveða að hvaða tilboði verður gengið".

Með í þeim kaupum var m.a. fjöldi byggingalóða í Blikastaðalandi. Morgunblaðið greindi síðar frá sölu á hluta af þeim lóðum, en vissi ekki nákvæmlega um söluverð. Taldi verið hafa kr. 16-18 milljarðar.

En hver skyldi hafa logið því upp, að Alfreð Þorsteinsson í Orkuveitu hafi selt Finni útherja alla hita- og rafmagnsmæla í Reykjavíkurborg fyrir kr. 600 milljónir, sem flugrekstrarfólinn leigir oss íbúum fyrir kr. 300 milljónir á ári?

Annars hélt undirritaður að Styrmir Gunnarsson tryði betur Davíð Oddssyni en þeim horska og útherjanum. Eða hann er búinn að gleyma heimsókn Davíðs til þeirra ritstjóra Matthíasar og Styrmis, þegar Landsbankamálið var um götur gengið og Jón Steinar Gunnlaugsson gert rækilega úttekt á málinu m.a. Þá kom Davíð á fund ritstjóranna og tilkynnti: „Landsbankamálið var bara fum og fát. Sverrir hafði ekkert gert af sér."

Höfundur er fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands.

Tengd skjölAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Fylgir þú lögum?

Ugla Stefaníu Kristjönudóttir Jónsdóttir,Þorbjörg Þorvaldsdóttir skrifar

Skoðun

Ótti

Gunnar Dan Wiium skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.