Körfubolti

Nonni Mæju: Mikið sjálfstraust í liðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Ólafur Jónsson.
Jón Ólafur Jónsson. Mynd/Vilhelm

Jón Ólafur Jónsson, betur þekktur sem Nonni Mæju, brosti í gegnum þykkt skeggið eftir frækinn sigur Snæfells á Grindavík í kvöld.

"Við komum svakalega flott til baka eftir leikinn. Pálmi var svona eins og góður framherji í fótbolta sem stígur upp undir lokin og klárar leiki," sagði Nonni en hann átti sjálfur magnaðan leik, skoraði 26 stig og setti þristinn sem kom Snæfelli yfir í lokaleikhlutanum.

"Ég skil ekki hvað gerðist hjá okkur í upphafi seinni hálfleiks því við töluðum um það í klefanum að mæta tilbúnir í seinni hálfleik. Það gekk ekki alveg eftir og þetta var óskiljanlegt hjá okkur því við vissum að þeir kæmu brjálaðir til seinni hálfleiks. Við vorum aftur á móti steinsofandi.

"Eftir það var mjög ljúft að landa þessum sigri. Það eru tveir sterkir leikmenn hjá okkur meiddir en við náum að kreista út sigurinn. Það er flott. Það er komið mikið sjálfstraust í liðið eftir síðasta tímabil og það er enn að skila sér."

Jón stóð oft vaktina í vörninni gegn Ryan Pettinella en sá var illviðráðanlegur með 35 stig og 20 fráköst.

"Hann gjörsamlega drap mig undir körfunni. Svo var alveg sama hverju hann henti upp, það fór allt ofan í. Hann er nautsterkur og ég var orðinn mjög þreyttur að hanga ofan í honum. Sem betur fer hafðist þetta þó svo hann hefði verið góður," sagði Jón og brosti breitt.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.