
Sköpunin, listin, náttúran og heimskan
Einn forstjóra Nike flaug milli jóla og nýárs á síðasta ári frá Boston til Íslands í þeim erindagjörðum að gera samning við íslenskan listamann um hönnun á nýrri skólínu. Fundir þeirra tveggja gengu vel og varð að veruleika að Nike-stjórinn eyddi áramótunum á Íslandi, svo vel leist honum á landið. Listamaðurinn bauð honum í partí til Bjarkar Guðmundsdóttur söngkonu á gamlárskvöld og fannst bandaríska viðskiptamanninum afar mikið um, enda mikill aðdáandi Bjarkar.
Andlitið datt af honum þegar hann hitti Bono í partíinu. Og síðar um nóttina kastaði Damon Albarn á hann kveðju. Nike-forstjóranum leið eins og Lísu í Undralandi. „Hvers konar land er þetta sem þið eigið?“ spurði hann og kleip sig í handlegginn.
Nokkrum dögum áður höfðu franskir ferðamenn notið akureyrskrar gestrisni eins og fjallað var um í fjölmiðlum. Akureyrsk fjölskylda sýndi þá víðsýni og gjafmildi að opna hús sitt á sjálft aðfangadagskvöld fyrir útlendingum sem vildu kynnast íslensku jólahaldi. Það er glæsilegt viðhorf sem sérhver stórþjóð í heimi myndi öfunda okkur af.
En aftur að Nike-forstjóranum. Ekki er að efa að hann mun segja söguna af íslensku áramótunum, hvar sem hann kemur í heiminum á árinu. Hvaða líkur eru á því að bissnessmaður í Boston hitti Björk, Damon Albarn og Bono á sömu freðnu þúfunni lengst norður í rassgati?! Nike-forstjórinn er örugglega þegar farinn að selja landið okkar fyrir Ferðamálastofu. „Word of mouth“ er það kallað á ensku þegar upplifun og reynsla berst frá manni til manns. Engir peningar geta keypt áhrifin af því. Engir.
Skammsýni
Samt er það þannig að skammsýnir pólitíkusar á Íslandi tala bara um peninga og langflestar fréttir okkar hverfast um framboð á peningum, vörslu þeirra, gnótt eða í síðustu tíð – skort. Skorturinn hefur orðið til þess að margir vilja lama skapandi starfsemi hér á landi, eða a.m.k. veikja hana. Ástæða þess að Björk, Bono og Damon og fleira fólk með snilligáfu kýs að verja áramótunum á Íslandi er að í náttúru og menningu okkar finnur fólk kærleika, kraft, örvun og andlegt fóður. Ekki gamalli kynþáttaþjóðmenningu heldur nútímamenningu. Samt liggja þessi helstu verðmæti þjóðarinnar nú vel við höggi stjórnmálamanna. Annars vegar skapandi hugsun. Hins vegar íslensk náttúra.
Umræðan um listamannalaunin er einn anginn af þeirri skammsýni að skapandi listamenn séu einskis nýtir nema þeir sjái sér efnalega farborða sjálfstætt. Með sama hætti er það sennilega ranghugmynd að fjármunir til ferðamannaátaks skili nokkru sinni meiri tekjum inn í landið en orðsporið sem af okkur fer í gegnum fólk eins og forstjórann frá Nike. Hið skapandi element Íslendinga hefur margendurtekið vegna fámennis okkar og einangrunar vakið heimsathygli. Sköpunargáfan er að einhverju leyti afurð ytri aðstæðna en hún gæti líka verið afurð félagslegrar sérstöðu, til dæmis þeirrar að við höfum engan her. Sköpunin er óþrjótandi auðlind nema stjórnvöld drepi hana niður. Þá er þetta orðið gott. Allir sem mestur veigur er í munu fara héðan. Og enginn koma í heimsókn.
Við höfum sýnt milljónum fórnarlamba viðskiptahátta okkar að Íslendingar kunna ekkert að reka banka á alþjóðavísu, við erum versta og siðvilltasta bankafólk í heimi, það sýnir sagan. Við höfum heldur ekki lært að græða pening á virkjunum. Erlendar skýrslur gefa Íslandi falleinkunn þegar kemur að framlegð í orkugeiranum. En við eigum Björk, við eigum Sjón, við eigum listamenn og menningu sem fjölmörgum þykir forvitnileg. Við eigum land sem býr yfir stórbrotinni og einstæðri náttúru sem margir öfunda okkur af.
En við eigum stjórnmálamenn sem enginn öfundar okkur af.
Skoðun

Í Hálsaskógi
Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar

Samstaða um netöryggi?
Hanna Katrín Friðriksson skrifar

Kenndin krukk í sköpunarverkið
Halldór Björn Runólfsson skrifar

Einangraðir og vannærðir eldri borgarar
Kolbrún Baldursdóttir skrifar

Þjóðferjusiglingar til eyja við landið
Karl Gauti Hjaltason skrifar

Reykjavíkurskrifstofa Google
Pawel Bartoszek skrifar

Borgarlínudans
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir skrifar

Rætin ummæli
Árni Þormóðsson skrifar

Hreinar strendur – alltaf
Bjarni Bjarnason skrifar

Þess vegna ber að standa vörð um starf GET/Hugarafls
Hópur fræðimanna við Háskóla Íslands skrifar

Tómhyggja og dómhyggja
Skúli S. Ólafsson skrifar

Réttið hlut ljósmæðra!
Vésteinn Valgarðsson skrifar

Brúðkaupstertur Stalíns
Þorvaldur Gylfason skrifar

Heilsteypt – ekki steinsteypt
Sigurveig H. Sigurðardóttir skrifar

Fjárausturinn
Kristinn Ingi Jónsson skrifar