Erlent

Liam Neeson segir ásakanir um kynferðislega áreitni í Hollywood minna á nornaveiðar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Liam Neeson er einn þekktasti leikari heims.
Liam Neeson er einn þekktasti leikari heims. Vísir/Getty

Norður-írski leikarinn Liam Neeson segir að ásakanir um kynferðislegt ofbeldi eða áreitni sem farið hefa um skemmtanaiðnaðinn að undanförnu séu „svolítið eins og nornaveiðar“. Guardian greinir frá.

Neeson var gestur The Late Late Show á RTE-sjónvarpsstöðinni í Írlandi í gærkvöldi. Var hann þar spurður um hvað honum fyndist um ásakanirnar sem sprottið hafa upp gegn fjölmörgum stórstjörnum og öðrum þekktum einstaklingum.

„Þetta er svolítið eins og nornaveiðar,“ sagði Neeson sem talaði sérsaklega um mál Garrison Keillor sem rekinn var frá útvarpsstöð í Minnesota vegna ásakana um óviðeigandi hegðun í garð samstarfskonu hans.

Keillor sjálfur hefur sagt að atvikið sem leiddi til brottreksturs hans hafi verið fólgið því að hann hafi sett hönd sína á bert bak samstarfskonunnar til þess að hugga hana.Virtist Neeson gefa til kynna að verið væri að bregðast of hart við slíkum tilvikum.

„Það er verið að ásaka sumt fólk, frægt fólk, um að snerta hnéið á stelpu, eða eitthvað, og skyndilega er búið að reka það úr því sem það er að gera,“ sagði Neeson.

Var Neeson einnig spurður sérstaklega út í ásakanirnar á hendur Dustin Hoffman sem meðal annars hefur verið ásakaður um að bera sig fyrir framan 17 ára stúlku á tökustað.

Sagði Neeson að hann væri efins um ásakanirnar á hendur Hoffman og virtist hann gera lítið úr þeim með því að líka hegðun Hoffmann við hjátrú.

„Þegar maður leikur í leikriti og þú ert með fjölskyldunni, öðrum leikurum og tæknifólki þá gerir maður skrýtna hluti og þetta verður að hjátrú. Ef þú gerir þetta ekki á hverju kvöldi heldur maður að maður sé að leggja álög á sýninguna,“ sagði Neeson sem gaf þó skýrt til kynna að hann hefði aldrei gert neitt sem Hoffman er sakaður um.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.