Fótbolti

Starfshópur um uppbyggingu Laugardalsvallar orðinn að veruleika

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. Vísir/Getty

Framtíð Laugardalsvallar hefur verið mikið í umræðunni á undanförnu enda þykir varla boðlegt fyrir þjóð, sem á bæði karla- og kvennalið meðal þeirra tuttugu og tveggja bestu knattspyrnuþjóða í heiminum, eiga ekki betri þjóðarleikvang. Nú er hinsvegar kominn skriður á málið.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Guðni Bergsson, formaður KSÍ, undirrituðu í dag yfirlýsingu um skipun starfshóps um uppbyggingu Laugardalsvallar.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlýsingu ríkis og Reykjavíkurborgar um skipan starfshóps með KSÍ um uppbyggingu Laugardalsvallar sem var undirrituð í dag

Knattspyrnusamband Íslands hefur haft til skoðunar um nokkurt skeið mögulega uppbyggingu Laugardalsvallar sem þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu. Í kjölfar góðs árangurs karla- og kvennalandsliða í knattspyrnu hefur farið fram umræða um stöðu Laugardalsvallar í alþjóðlegu samhengi en völlurinn og mannvirki umhverfis hann standast ekki alþjóðlegar kröfur. Knattspyrnusamband Íslands hefur undanfarin misseri skoðað ýmsa möguleika til úrbóta og fyrir liggur hagkvæmniathugun þar sem sviðsmyndir vegna mögulegrar uppbyggingar eru kynntar. Ríki og Reykjavíkurborg hafa stutt verkefnið með fjárframlögum, m.a. vegna kostnaðargreiningar.

Nú þegar fyrir liggur hagkvæmniathugun, rekstraráætlun, forhönnun og kostnaðarmat mannvirkja liggur fyrir að leggja mat á undirbúningsgögnin og taka ákvörðun um framhald málsins. Forsætisráðherra og borgarstjórinn í Reykjavík hafa ákveðið að skipa starfshóp í samstarfi við KSÍ sem fara skal yfir fyrirliggjandi tillögur, leggja mat á þær og gera tillögur um mögulega uppbyggingu.

Í starfshópnum eiga sæti fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Reykjavíkurborgar og Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Starfshópurinn á að meta og gera tillögur um mögulega uppbyggingu Laugardalsvallar og skila tillögum sínum fyrir 1. apríl á þessu ári.

Starfshópnum verður falið að gera tillögu um eftirfarandi atriði:

• Hvers konar leikvangur væri hagstæðastur í Laugardal af þeim kostum sem skoðaðir hafa verið.
• Fjármögnun og kostnaðarskiptingu út frá þeirri hugmynd sem verður fyrir valinu.
• Eignarhald mannvirkisins.
• Mögulega aðkomu ríkisins að verkefninu, m.a. í ljósi hugmynda um regluverk um
   þjóðarleikvanga.
• Mögulega aðkomu Reykjavíkurborgar að verkefninu.
• Mögulega aðkomu KSÍ að verkefninu.
• Tilhögun framkvæmda og tímaáætlun.

Starfshópinn skipa:
Benedikt Árnason, skrifstofustjóri, forsætisráðuneyti, formaður.
Anna Sigríður Arnardóttir, lögfræðingur, f.h. fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Óskar Þór Ármannsson, sérfræðingur, mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri Eigna- og atvinnuþróunar, Reykjavíkurborg.
Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs, Reykjavíkurborg.
Ómar Einarsson, sviðsstjóri Íþrótta- og tómstundasviðs, Reykjavíkurborg.
Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands.
Guðrún Inga Sívertsen, varaformaður Knattpyrnusambands Íslands.
Borghildur Sigurðardóttir, stjórnarmaður Knattspyrnusambands Íslands.
Ráðgjafi starfshópsins er Pétur Marteinssonar, framkvæmdastjóri Borgarbrags.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.