Innlent

Dómari víkur í meiðyrðamáli gegn Jóni Steinari

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Benedikt Bogason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sandra Baldvinsdóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjaness, mun víkja sæti sem dómari í meiðyrðamáli sem Benedikt Bogason hæstaréttardómari höfðaði gegn Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttarlögmanni.

Greint var frá því á vef RÚV í gær að Jón Steinar teldi Söndru vanhæfa til að dæma í málinu vegna ummæla Skúla Magnússonar, fyrrverandi formanns Dómarafélags íslands, á aðalfundi félagsins. Sandra sat með Skúla í stjórn og ekki er vitað að hún hafi gert athugasemdir við ummæli hans.

Benedikt stefndi Jóni Steinari fyrir meiðyrði í nóvember síðastliðnum og krefst hann þess að fimm ummæli í bók Jóns Steinars, „Með lognið í fangið – um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ verði dæmd dauð og ómerk.

Í tilkynningu sem lögmaður Benedikts, Vilhjálmur Vilhjálmsson, sendi fjölmiðlum í nóvember, segir að í ritinu ásaki Jón Steinar Benedikt og aðra dómara sem sátu í meirihluta Hæstaréttar í máli nr. 279/2011 um að hafa framið dómsmorð á ákærða í málinu.

Í samtali við Vísi segist Jón Steinar taka ofan hatt sinn fyrir Söndru að taka þessa ákvörðun og segir hana hafa leyst úr málinu af málefnalegri yfirvegun.

„Það er auðvitað vandinn í þessu að þegar maðurinn stefnir mér við þessar kringumstæður er erfitt að finna hlutlausan dómara. Hann leggur þetta upp þannig að það sé verið að ráðast á dómara landsins með þessari umfjöllun minni um þennan dóm og þess vegna má segja að sakarefnið sé dálítið þess háttar að það kunni að geta komið upp álitamál,“ segir Jón Steinar í samtali við Vísi.

„Ég treysti mörgum íslenskum dómurum mjög vel og efast ekki um að þar séu margir sem er treystandi til að fjalla um svona mál.“

Fyrst var greint frá úrskurði héraðsdóms í málinu á vef Fréttablaðsins.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.