Tónlist

Jóhanni lýst sem hlýjum og einstökum

Guðný Hrönn skrifar
Jóhann Jóhansson, 19. september 1969 - 9. febrúar 2018.
Jóhann Jóhansson, 19. september 1969 - 9. febrúar 2018. NORDICPHOTOS/GETTY

Jóhann Jóhannsson tónskáld lést 9. febrúar, 48 ára að aldri. Það er óhætt að segja að ferill Jóhanns sé glæstur og magnaður og hér verður stiklað á stóru. Lífið heyrði í nokkrum vinum og kollegum Jóhanns sem minnast hans með hlýhug.

Róbert Douglas leikstýrði Íslenska draumnum sem kom út árið 2000.

Róbert Ingi Douglas, leikstjóri Íslenska draumsins

„Ég sat á kaffihúsi og hann kom upp að mér og sagði mér að hann hafi séð stuttmyndina mína. Við þekktumst ekki neitt en ég kannaðist því ég var mikill aðdáandi Daisy Hill Puppy Farm.

Hann spurði mig hvort ég væri ekki að fara að gera mynd í fullri lengd og ég játaði því.

Hann spurði þá hvort mig vantaði ekki tónlist við myndina og ég sagði bara jú og spurði á móti hvort að hann væri að gera kvikmyndatónlist.

Hann sagði jú og á tveimur mínútum vorum við búnir að græja þetta samstarf. Síðan var þetta bara ein af fallegustu kvikmyndatónlist sem ég hef heyrt. Við unnum mjög vel saman og hann skildi allar mínar pælingar mjög vel.“

Árni Ólafur Ásgeirsson leikstýrði Blóðböndum, sem kom út árið 2006.

Árni Ólafur Ásgeirsson, leikstjóri Blóðbanda.

„Jói var með eindæmum gáfaður og hlýr maður, sem endurspeglaðist svo skýrt í tónlistinni hans. Ég man þegar við sátum í þankahríð í lítilli kjallaraholu í Vesturbænum og unnum að myndinni Blóðböndum.

Það var svo gaman og gefandi að bralla þetta með honum því hann nálgaðist vinnuna sína á svo heimspekilegan hátt; af ótrúlegri dýpt og næmni. Í kjölfarið galdraði hann fram tónlist sem var ekki bara falleg, heldur var hugsun í hverju stefi.

Eftir það fylgdist maður með gleði og stolti með því hvernig hann vann sig upp úr þessum sjarmerandi kjallara, yfir í að verða eitt virtasta kvikmyndatónskáld heims. Það kom mér samt ekkert sérstsaklega á óvart hversu ótrúlegum árangri hann náði – slíkir voru hæfileikarnir.

Samt var hann alltaf jafn hógvær og ljúfur. Það er ekki oft sem maður nýtur þess heiðurs á lífsleiðinni að kynnast og vinna með fólki eins og Jóa. Hann var einfaldlega „unique“ á svo margan hátt.“

Sigurður Björn Blöndal, meðlimur HAM

„Jóhann var mjög mikilvægur hlekkur í þróun HAM. Koma hans í hljómsveitina opnaði ýmsa möguleika og við leyfðum okkur að kanna nýjar lendur. Hans snilligáfa hefur haft áhrif á allt sem við gerum með beinum og óbeinum hætti.“


Ólafur Arnalds, tónskáld

„Ég þekkti Jóhann ekki vel en þessi sena af ný-klassískum tónskáldum er ekki sérstaklega stór svo leiðir okkar lágu óhjákvæmilega saman. Ég leit upp til hans og sýn hans á listina hafði mikil áhrif á mína eigin listsköpun.“

Þrjár kvikmyndir með tónlist Jóhanns koma út á þessu ári. Það eru myndirnar The Mercy, Mandy og Mary Magda­lene.

„Það er mér sérstaklega minnisstætt þegar hann var að gera tónlistina fyrir Mother!, mynd Darrens Aronofsky, og áttaði sig á eftir margra mánaða vinnu að myndin var einfaldlega betri án tónlistar.“

Það þarf virkilega sterkan listamann til þess að setja egóið sitt til hliðar og átta sig á að verkið er betra án hans.

Þetta lýsir Jóhanni sem listamanni ótrúlega vel – hann þurfti að fara í gegnum ferlið og semja tónlistina til að komast að þessari niðurstöðu.

Að mínu mati inniheldur kvikmyndin Mother! ennþá tónlist eftir Jóhann. Tónlistin er bara þögn, þrúgandi þögn,“ segir Ólafur.
Tímalína

1988
Stígur sín fyrstu skref í tónlist með hljómsveitinni Daisy Hill Puppy Farm.

1991
Jóhann spilaði með hljómsveitinni HAM um skeið.

1993
Vinnur með Páli Óskari að hans fyrstu sólóplötu, Stuð.

1994
Átti stóran þátt í gerð fyrstu plötu Ununar, Æ.

1999
Jóhann er einn stofnenda Apparat Organ Quartet sem hefur störf þetta ár og gefur út samnefnda plötu. Jóhann, ásamt Hilmari Jenssyni og Kiru Kiru, stofna Tilraunaeldhúsið, eða Kitchen Motors.2000
Fyrsta myndin sem Jóhann samdi tónlist fyrir var költmyndin Íslenski draumurinn árið 2000. Síðan samdi hann fyrir fleiri myndir eins og Maður eins og ég, Dís og Blóðbönd.

Jóhann ásamt leikkonunni Felicity Jones eftir Golden Globe-hátíðina árið 2015 þar sem hann var heiðraður fyrir The Theory of Everything. NORDICPHOTOS/GETTY

2002 
Fyrsta sólóplatan, Englabörn, kemur út.

2004
Önnur sólóplatan, Virðulegir forsetar.

2006

IBM 1401, A User’s Manual kemur út. Einnig smáskífan The Sun’s Gone Dim and the Sky’s Turned Black. 

Þar að auki kemur út fyrsta plata hrollgervlasveitarinnar Evil Madness, þar sem Stilluppsteypa, Jóhann, DJ Musician, Curver o.fl. sameina krafta sína. Nefnist hún Demon Jukebox.

2008 
Vann til verðlauna fyrir stuttmyndina Varmints á Rhodes Film Festival og á Sapporo Short Film International-hátíðinni. 

Sama ár kemur út platan Fordlandia.

Kvikmyndin Sicario kom út árið 2015.

2011 
Platan The Miners’ Hymns kemur út.

2012
 
Jóhann var tilnefndur til tvennra verðlauna fyrir kvikmyndina Mystery og hreppti önnur þeirra.

Það eru verðlaunin Golden Horse Awards og Asian Film Awards. Hann vinnur þau fyrrnefndu.

2014 
Jóhann vinnur Golden Globe verðlaun fyrir tónlistina í The Theory of Everything.

Er einnig tilnefndur til Óskarsverðlauna, BAFTA-verðlaunanna og Grammy-verðlaunanna.

2015 
Tilnefndur til Óskarsins og BAFTA fyrir tónlistina í Sicario. Platan End of Summer kemur út ásamt hljóðrás Sicario.

2016 
Hlaut World Soundtrack-verðlaun sem besta kvikmyndatónskáld ársins.

Tilnefndur til bæði Golden Globe-verðlauna og BAFTA-verðlauna fyrir tónlistina í Arrival. Síðasta sólóplata Jóhanns, Orphee, kemur út.

2017 
Er tónlistar- og hljóðráðgjafi við gerð myndarinnar Mother!

2018 
Þrjár kvikmyndir með tónlist Jóhanns koma út á þessu ári. Það eru myndirnar Mandy, Mercy, og Mary Magda­lene.


Tengdar fréttir

Tvenna með tónlist úr smiðju Jóhanns

Annað kvöld verða sýndar stórmyndirnar Arrival og Sicario á Stöð 2 Bíó í minningu Jóhanns Jóhannssonar tónskálds sem lést síðastliðinn föstudag.

Jóhann Jóhannsson látinn

Jóhann Jóhannsson tónskáld er látinn. Fannst hann látinn á heimili sínu í Berlín í gærAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.