Skoðun
Jón Sigurður Eyjólfsson

Afdrifaríkur vodkasopi

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar

Ég er blessunarlega barnalegur. Ég trúi kannski ekki á jólasveina en ég gerði það eflaust hefði ég ekki lent í því að leika Stúf á jólaballskemmtun Grunnskólans á Bíldudal þegar ég var á áttunda ári. Ég trúi hins vegar á álfa og tröll, hverju orði í Íslendingasögunum, kemst við yfir bókum Astrid Lindgren, hef enn þá ekki bitið úr nálinni með upplausn Bítlanna, er ólæs á Excelskjöl og yfirvald fyrir mér eru bara karlar með bindi og, sem betur fer, í seinni tíð líka einstaka konur í kjólum.

Ástæðan fyrir þessum barnaskap varð mér ljós þegar ég fór í bruggverksmiðju eina í Portúgal en þá var verið að lýsa fyrir mér hvernig hið þurrsæta púrtvín væri bruggað. Þrúgurnar eru nefnilega pressaðar og safinn geymdur í stórum tönkum en áður en gerjunin nær að afmá sæta bragðið úr miðinum er hún stöðvuð með því að hella brennivíni í tankinn.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að eitt sinn sá ég afa og Bjössa frænda káta heima hjá þeim fyrrnefnda að drekka kók. Hlógu þeir og höfðu uppi gamanmál þar til síminn hringdi allt í einu og ábúðarmikil rödd hinumegin línunnar kvað svo um að þeir feðgar yrðu að skjótast niður á höfn til einhverra erinda. Leitaði ég þá lags, fór í ísskápinn og fann hálfkláruð kókglösin. Fannst mér ég hafa himin höndum tekið þar sem gos lá ekki alltaf svona vel við sopa í þá daga. Teygaði ég að víkingasið en í munni mér fann ég ramman rússneskan keim, ættaðan úr eiturbrasverksmiðju í Síberíu. Fann ég strax hvernig gerjun mín snarhemlaði.

Ég var átta ára, ljós á brún og brá, lék mér að stráum, elskaði Astrid Lindgren, Bítlana og Ipswich.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.