Körfubolti

Haukakonur verða deildarmeistarar með sigri í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir.
Helena Sverrisdóttir. Vísir/Ernir

Haukastrákarnir eru orðnir deildarmeistarar í Domino´s deild karla í körfubolta og í kvöld geta Haukastelpurnar leikið það eftir.

Haukaliðið heimsækir Val í toppslag deildarinnar á Hlíðarenda í kvöld og með sigri þá tryggir Haukaliðið sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarrétt út úrslitakeppnina.

Leikur Vals og Hauka hefst klukkan 19.30 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.

Haukastrákarnir voru að verða deildameistarar í fyrsta sinn en Haukastelpurnar geta unnið sinn fimmta deildarmeistaratitil en þær unnu hann einnig árin 2006, 2007, 2009 og 2016.

Það eru ennþá þrjár umferðir eftir þegar leikirnir klárast í kvöld en Haukaliðið væri með sigri komið með sex stiga forystu á Val og um leið búið að tryggja sér betri stöðu í innbyrðisleikjum.

Valskonur töpuðu á móti Skallagrími í Borgarnesi á sunnudagskvöldið og það eru þau úrslit sem gefa Haukakonum þetta tækifæri að tryggja sér deildarmeistaratitilinn á heimavelli liðsins sem er í öðru sæti.

Haukakonur unnu sinn þrettánda deildarsigur í röð á laugardaginn en liðið er búið að vinna alla leiki sína síðan að þær mættu síðast á Hlíðarenda 2. desember og töpuðu þá 78-68.

Síðan þá hefur Haukaliðið unnið tvo sigra á liðum Breiðabliks, Keflavíkur, Skallagríms, Stjörnunnar, Njarðvíkur og Snæfells og svo einn sigur á Val á sínum eigin heimavelli.

Vinni Haukaliðið í kvöld nær liðið því að vinna öll hin deildarinnar tvisvar sinnum í einum rykk.

Valskonur hafa átt í miklum vandræðum með Helenu Sverrisdóttur í fyrstu þremur leikjum liðanna í vetur en Helena er með þrennu að meðaltali á móti Val á tímabilinu, hefur skorað 11,7 stig, tekið 13,7 fráköst og gefið 14,7 stoðsendingar að meðaltali í leik á móti Hlíðarendaliðinu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.