Erlent

Gina Haspel færist nær forstjórastöðunni

Andri Eysteinsson skrifar
Gina Haspel við upphaf fundar leyniþjónustunefndarinnar.
Gina Haspel við upphaf fundar leyniþjónustunefndarinnar.

Leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings féllst í dag á tilnefningu Ginu Haspel til stöðu forstjóra leyniþjónustunnar CIA að sögn Washington Post. Allir átta nefndarmenn repúblíkana auk tveggja af sjö nefndarmönnum demókrata studdu tilnefningu Haspel.

Haspel sem hefur gegnt stöðu aðstoðarforstjóra CIA síðan í febrúar 2017 tók við sem starfandi forstjóri í lok apríl. Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði þá skipað þáverandi forstjóra Mike Pompeo í stöðu Utanríkisráðherra í stað Rex Tillerson.

Tilnefning Haspel hefur verið umdeild og hafa ýmsir lýst yfir efasemdum vegna fortíðar hennar. Hún átti þátt í pyntingaráætlun CIA eftir hryðjuverkaárásirnar 11 .september einnig stýrði hún leynifangelsi í Taílandi þar sem fangar voru beittir pyntingum. Haspel hefur þó gefið það út að hún mun ekki endurvekja pyntingaáætlanir leyniþjónustunnar.

Á næstu dögum mun öldungadeild Bandaríkjaþings í heild sinni kjósa um tilnefningu Haspel, líklegt þykir að hún verði samþykkt vandkvæðalaust. Nær allir þingmenn repúblikana auk fimm þingmanna demókrataflokksins hafa þegar lýst yfir stuðningi. Verði Gina Haspel næsti forstjóri CIA verður hún fyrsta konan til að stýra stofnuninni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.