Erlent

„Þeir fóru til að taka hann af lífi“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi morðsins í Villahermosa í gær.
Frá vettvangi morðsins í Villahermosa í gær. vísir/epa

Mexíkóski blaðamaðurinn Juan Carlos Huerta var myrtur í gær og varð þar með fjórði blaðamaðurinn sem myrtur er í Mexíkó á þessu ári.

Huerta var skotinn til bana þar sem hann keyrði frá heimili sínu í Villahermosa, höfuðborg Tabasco-ríkis í suðurhluta landsins.

Ríkisstjórinn Arturo Núñez sagði að morðið væri ekki rán heldur virtist sem það væri tengt starfi Huerta sem blaðamaður.
„Þeir fóru til að taka hann af lífi,“ sagði Núñez við fjölmiðla.

Huerta var stjórnandi sjónvarpsþáttar og útvarpsstjóri hjá einni útvarpsstöð í Tabasco.

Landið orðið að kirkjugarði fyrir blaðamenn

Síðan mexíkósk yfirvöld hófu stríð sitt gegn eiturlyfjagengjum í landinu fyrir um tíu árum hefur landið orðið að eins konar kirkjugarði fyrir blaðamenn, eins og það er orðað í umfjöllun Guardian.

Eiturlyfjagengin hafa kúgað, ógnað og myrt blaðamenn sem og neytt fjölmarga fjölmiðla í landinu til þess að fjalla um glæpi á yfirborðskenndan hátt.

Þannig segja tveir blaðamenn í Tabasco að þeir dragi oft úr þegar þeir fjalli um glæpi þar sem þeir óttast um öryggi sitt.


Refsileysið virki eins og hvatning til morða

Í gær var eitt ár síðan blaðamaðurinn Javier Valdez var myrtur í Sinaloa-ríki í Mexíkó. Hann stofnaði tímaritið Ríodoce sem fjallaði mikið um glæpi og spillingu í Sinaloa en blaðið dró ekkert undan.

Eiturlyfjagengi hafa barist grimmilega um völdin í Sinaloa eftir að eiturlyfjabaróninn El Chapo, leiðtogi Sinaloa-hringsins, var framseldur til Bandaríkjanna í fyrra.

Valdez var dreginn út úr bíl sínum þann 15. maí 2017 og skotinn tólf sinnum. Maðurinn sem grunaður er um morðið var handtekinn í síðasta mánuði en afar sjaldgæft er að morðingjar blaðamanna séu sóttir til saka í Mexíkó þar sem málin eru sjaldnast rannsökuð ítarlega. Fulltrúi nefndar um vernd blaðamanna segir að refsileysið virki eins og hvatning til að myrða blaðamenn.

Samkvæmt úttekt samtakanna Blaðamenn án landamæra er Mexíkó í 147. sæti á heimsvísu þegar kemur að frelsi fjölmiðla, einu sæti ofar en Rússland. Alls voru tólf blaðamenn myrtir í Mexíkó í fyrra en jafnmargir blaðamenn voru drepnir í hinu stríðshrjáða Sýrlandi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.