Erlent

Niðurstöður um trefjar sagðar áfall fyrir lágkolvetnakúra

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Heilhveitipasta, brauð og morgunkorn virðist heilsusamlegra en talsmenn lágkolvetnakúra hafa haldið fram.
Heilhveitipasta, brauð og morgunkorn virðist heilsusamlegra en talsmenn lágkolvetnakúra hafa haldið fram. Vísir/Getty

Ný viðamikil rannsókn sem gerð var fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina bendir til þess að aukin neysla trefja, sem finna má í kornmeti, pasta, brauði og hnetum, dragi úr líkum á hjartasjúkdómum á lífsleiðinni og auki lífslíkur fólks.

Höfundar skýrslunnar segja niðurstöðurnar fagnaðarefni, en að þær komi sér illa fyrir þá sem tali fyrir lágkolvetnakúrum sem hafa verið afar vinsælir um allan heim. Prófessor Jim Mann frá Nýja Sjálandi leiddi rannsóknina en stuðst var við gögn víðsvegar að úr heiminum. Mann leiddi aðra fræga rannsókn fyrir nokkrum árum sem sýndi fram á gagnsemi þess að draga úr sykurneyslu.

Nýja rannsóknin sýnir fram á að þótt kolvetni á borð við sykur séu slæm fyrir líkamann, séu önnur kolvetni þvert á móti afar holl og nauðsynleg manninum, að því er kemur fram í frétt The Guardian. Áherslan á lágkolvetnafæði hafi vissulega dregið úr sykurneyslu, en hún hafi einnig dregið úr neyslu á trefjaríkum kolvetnum.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar er mælt með að meðalmaðurinn neyti að minnsta kosti 25 til 29 gramma af trefjum á hverjum degi og vísbendingar eru um að enn meiri neysla sé jafnvel af hinu góða. Flestir borða hinsvegar minna en 20 grömm af trefjum á hverjum degi.

Skýrslan vísindamannanna nú er sögð eiga að hjálpa Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni að semja leiðbeiningar um hversu miklar trefjar fólk ætti að neyta til þess að bæta heilsu. Til stendur að gefa leiðbeiningarnar út á næsta ári, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.