Erlent

Fannst á lífi 87 dögum eftir morðið á foreldrunum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jayme Closs.
Jayme Closs. Mynd/lögreglan í Barron-sýslu

Jayme Closs, þrettán ára stúlka frá Wisconsinríki í Bandaríkjunum, fannst á lífi í gærkvöldi eftir að hafa verið saknað síðan í október. Hún hvarf sama dag og foreldrar hennar fundust myrtir á heimili sínu.

Lögregla í Wisconsin greinir frá því að einstaklingur grunaður um aðild að málinu hafi verið handtekinn. Í frétt BBC er haft eftir fjölmiðlum vestanhafs að Closs hafi fundist í grennd við bæinn Gordon í Wisconsin en svo virðist sem henni hafi verið haldið í húsi á svipuðum slóðum. Ekki hefur fengist staðfest hvort Closs hafi verið rænt eða hvort hún hafi verið viðriðin morðið á foreldrum sínum.

Haft er eftir kennara við skóla á svæðinu að nágranni hafi gengið fram á Closs á fimmtudag. Þá hafi stúlkan verið afar grönn, skítug og klædd of stórum skóm.

Foreldrar Closs, 56 og 46 ára, fundust skotnir til bana í október síðastliðnum. Þegar lögregla kom á vettvang var Closs horfin og hvorki bólaði á morðingjanum né skotvopninu. Boðað hefur verið til blaðamannafundar vegna málsins í Wisconsin í dag.

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.