Enski boltinn

Besta sem hann hefur séð til Liverpool á síðastliðnu ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane skorar fyrra mark sitt í gær á stórglæsilegan hátt.
Sadio Mane skorar fyrra mark sitt í gær á stórglæsilegan hátt. Getty/Craig Mercer

Knattspyrnusérfræðingur hjá BBC, sem þekkir mjög vel til hjá Liverpool, var virkilega ánægður með frammistöðu liðsins á móti Bayern München á Allianz Arena í München í gær.

Mark Lawrenson vann þrettán titla með Liverpool á níunda áratugnum þar á meðal Evrópukeppni meistaraliða árið 1984 og enska meistaratitilinn fimm sinnum. Hann hefur unnið fyrir BBC undanfarin ár.

Lawrenson fór yfir leik Liverpool í gærkvöldi en enska liðið vann þá 3-1 útisigur á Bayern München og tryggði sér örugglega sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.„Frammistaða Liverpool liðsins í seinni hálfleiknum í München var sú besta sem ég hef séð til liðsins á síðastliðnu ári og þá tel ég með sigurleikina sem komu Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra,“ segir Mark Lawrenson í pistli sínum.

„Jurgen Klopp var með réttu taktíkina og Liverpool liðið gerði allt sem það þurfti að gera þessar 45 mínútur. Í stöðunni 1-1 í hálfleik var allt í jafnvægi ennþá. Ég hafði smá áhyggjur af Bayern væri að komast betur inn í leikinn rétt fyrir hálfleik en Klopp þétti vörnina í hálfleik og liðið ógnaði líka meira á hinum enda vallarins,“ skrifaði Lawrenson.

„Virgil van Dijk var með enn eina klassaframmistöðuna og skoraði síðan þetta mikilvæga annað mark líka. Það var enginn að fara að stoppa hann þegar réðist á hornspyrnu James Milner. Sadio Mane var líka frábær í framlínunni en hann var ekki sá eini,“ skrifaði Lawrenson.

„Mikið hefur verið fjallað um form Liverpool liðsins að undanförnu og þeir voru bara venjulegir á Old Trafford og Goodison Park. Í þessum leik sýndu þeir aftur á móti hversu erfiðir þeir eru við að eiga,“ skrifaði Lawrenson.

„Þetta var stórkostleg frammistaða en um leið allt öðru vísi en sóknarveislan sem liðið bauð upp á síðasta tímabili. Þá þurfti Liverpool að skora nóg af mörkum af því þeir voru veikir fyrir í vörninni,“ sagði Lawrenson og bætti við:

„Frammistaða liðsins á miðvikudagskvöldið var meira í takt við þá sem bestu liðin í álfunni sýna. Þá á ég við hvernig þeir tóku öll völd í leik á móti erfiðum mótherja og komust þægilega áfram.,“ skrifaði Lawrenson.

Það má lesa allan pistil Mark Lawrenson með því að smella hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.