Íslenski boltinn

22 dagar í Pepsi Max: Pétur Péturs bætti markametið í Keflavíkurbúningi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Úrklippa úr Tímanum frá 22. ágúst 1978 en þar sést Pétur Pétursson í Keflavíkurbúningnum. Hann setti nýtt markamet með því að skora tvö mörk undir lok leiksins.
Úrklippa úr Tímanum frá 22. ágúst 1978 en þar sést Pétur Pétursson í Keflavíkurbúningnum. Hann setti nýtt markamet með því að skora tvö mörk undir lok leiksins. Skjámynd/Tíminn

Pepsi Max deild karla fer aftur af stað 13. júní næstkomandi. Það er mikil spenna fyrir því að boltinn fari aftur að rúlla en lengsta undirbúningstímabil í fótboltaheiminum varð enn lengra þökk sé kórónuveirunni.

Vísir ætlar að telja niður í fyrsta leik með því að rifja upp eitt og annað frá sögu úrvalsdeildar karla í knattspyrnu. Í dag eru 22 dagar í fyrsta leikinn sem verður á milli Vals og KR á Hlíðarenda 13. júní næstkomandi.

Pétur Pétursson skoraði 19 mörk í 17 leikjum með Skagamönnum sumarið 1978 og bætti þar með fimm ára met Hermanns Gunnarssonar.

Hermann Gunnarsson hafði átt metið síðan 1973 þegar hann skoraði 17 mörk í 13 leikjum með Valsliðinu. Hermann skoraði þá nákvæmlega helming marka Valsmanna. Hermann hafði þá slegið tólf ára met KR-ingsins Þórólfs Beck sem skoraði 16 mörk sumarið 1961.

Pétur jafnaði markamet Hermanns Gunnarssonar 12. ágúst með því að skora tvisvar á móti Víkingum í 5-0 sigri upp á Akranesi.

Sjö dögum síðar átti Pétur markametið einn þegar hann skoraði tvö mörk í 2-2 jafntefli í útileik í Keflavík.

Pétur var þá kominn með 19 mörk eftir fimmtán leiki en þessi leikur við Keflavík var í sextándu umferð. Pétur hafði misst af leik á móti Fram 10. júní vegna agabanns.

Bæði mörk Péturs í Keflavík komu í blálokin en Keflavík var 2-0 yfir þegar aðeins tvær mínútur voru eftir. Pétur skoraði líka ekki mörkin í búningi ÍA heldur í gömlum Keflvíkurbúningi.

Skagamenn gleymdu búningnum upp á Skaga og Keflvíkingar lánuðu þeim gamla búninga svo leikurinn gæti farið fram.

Pétur átti þarna eftir tvo leiki sem voru á móti ÍBV á heimavelli og á móti Val á útivelli. Pétur fékk því 180 mínútur til að skora tuttugasta markið en tókst það ekki.

Fyrsti meðlimurinn í nítján marka klúbbnum:

Pétur Pétursson, ÍA 1978

 • 19 mörk í 17 leikjum
 • 5 á heimavelli - 14 á útivelli
 • 9 í fyrri hálfleik - 10 í seinni hálfeik
 • 6 mörk i fyrri umferð - 13 mörk í seinni umferð
 • 12 skot - 3 víti - 4 skallamörk
 • 4 tvennur - 1 ferna

Á móti hverjum

 • 3 mörk á móti efstu þremur liðunum
 • 8 mörk á móti efri hluta
 • 11 mörk á móti neðri hluta
 • 3 mörk á móti falliðunum

Markahæstu mánuðir:

 • 7 mörk í júlí
 • 6 mörk í ágúst
 • 5 mörk í júní

Flest mörk á móti einstökum liðum

 • 4 mörk á móti KA

  3 mörk á móti Keflavík
 • 3 mörk á móti Víkingi


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.