Fótbolti

Búið spil hjá Zlatan?

Sindri Sverrisson skrifar
Zlatan Ibrahimovic sneri aftur til AC Milan í janúar eftir að hafa spilað með LA Galaxy í Bandaríkjunum en gæti nú hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Milan.
Zlatan Ibrahimovic sneri aftur til AC Milan í janúar eftir að hafa spilað með LA Galaxy í Bandaríkjunum en gæti nú hafa spilað sinn síðasta leik fyrir Milan. VÍSIR/GETTY

Sænska fótboltastjarnan Zlatan Ibrahimovic meiddist alvarlega á æfingu með AC Milan í dag og sá orðrómur komst á kreik að þau gætu orðið til þess að knattspyrnuferli hans væri lokið.

Zlatan, sem er 38 ára gamall, sneri aftur til Ítalíu fyrr í þessum mánuði eftir að hafa farið til Svíþjóðar þegar hlé var gert á íþróttum í Ítalíu vegna kórónuveirufaraldursins. Hann meiddist á æfingu Milan í dag og miðað við fyrstu fréttir Sky Sports Italia og Corriere della Sera var talið að hann gæti hafa slitið hásin. Það hefði þýtt að hann yrði frá keppni í að minnsta kosti hálft ár og að óvíst væri að hann myndi spila aftur fótbolta á hæsta stigi.

Gazzetta dello Sport greindi hins vegar frá því síðar að þó að óttast hefði verið að um hásinarmeiðsli væri að ræða þá liti nú út fyrir að Zlatan hefði „aðeins“ meiðst alvarlega í hægri kálfa. Hann hafi haltrað af velli, mjög þjáður, og að ljóst væri að hann gæti orðið margar vikur að jafna sig. Sænska blaðið Aftonbladet hefur eftir fyrrverandi lækni sænska landsliðsins að sé um kálfameiðsli að ræða gæti Zlatan orðið að sleppa fótbolta næstu tvo mánuðina.

Það bendir því allt til þess að Zlatan spili ekki meira á leiktíðinni með AC Milan, en Ítalir stefna á að hefja keppni í efstu deild að nýju í næsta mánuði eftir hlé vegna kórónuveirunnar. Milan á fyrir höndum harða baráttu um Evrópusæti og Gazzetta bendir á að þar hefði Zlatan nýst jafnvel enn betur en áður. Hann hafi nefniega verið í betra ásigkomulagi en flestir samherja sinna eftir að hafa getað æft af fullum krafti með Hammarby í Svíþjóð á meðan að útgöngubann var á Ítalíu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.