Innlent

Búast við því að fleiri séu smitaðir

Sylvía Hall skrifar
Leikmaður Víkings í Ólafsvík greindist með kórónuveirusmit í dag.
Leikmaður Víkings í Ólafsvík greindist með kórónuveirusmit í dag. Vísir/Getty

Snæfellsbær biðlar til íbúa að fylgja fyrirmælum sóttvarnalæknis og huga að smitvörnum eftir að einstaklingur þar greindist með kórónuveirusmit. Aðeins eitt smit greindist í vor á heilsugæslunni í Ólafsvík og þurftu fáir í sóttkví vegna þess.

Í dag var greint frá því að leikmaður Víkings í Ólafsvík hefði greinst með veiruna eftir að grunur vaknaði um smit í gær. Allir leikmenn voru því sendir í skoðun.

„Nú er ljóst að faraldurinn hefur ekki gengið yfir eins og við höfðum öll vonað og engin leið að segja til um framhaldið. Ljóst er að veiran er ólseig og búast má við því að fleiri smit greinist hér á næstu dögum og vikum,“ segir í tilkynningu frá Snæfellsbæ.

Eftir að einstaklingurinn greindist með veiruna hefur smitrakningarferli verið sett af stað og mun rakningarteymi hafa samband við þá sem hafa verið í samskiptum við viðkomandi og gætu þurft í sóttkví. 

Smitrakningu er þó ekki lokið vegna anna hjá smitrakningarteyminu og hafa sumarstarfsmenn í bæjarvinnunni verið beðnir um að halda sig til hlés.

Snæfellsbær biður fólk að hlýða þeim fyrirmælum sem koma frá sérfræðingum í þeim efnum.

„Við ítrekum og áréttum aftur mikilvægi þess að íbúar haldi áfram að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum sóttvarnarlæknis og rétt að minna íbúa á að fylgjast vel með fréttaflutningi og öðrum tilkynningum frá Snæfellsbæ.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.