Handbolti

Birna fékk skot í höfuðið: „Mér finnst þetta stórhættulegt“

Sindri Sverrisson skrifar
Eyjakonur og Sólveig Lára Kristjánsdóttir huga að Birnu Berg Haraldsdóttur sem fékk boltann í höfuðið.
Eyjakonur og Sólveig Lára Kristjánsdóttir huga að Birnu Berg Haraldsdóttur sem fékk boltann í höfuðið. MYND/STÖÐ 2 SPORT

„Það er enginn að reyna að skjóta í höfuðið á neinum en þetta er hræðilegt og ég vona að það sé í lagi með Birnu,“ segir Sigurlaug Rúnarsdóttir sem vill breyta fyrirkomulagi aukakasta í lok handboltaleikja.

Birna Berg Haraldsdóttir fékk skot beint í höfuðið þegar Sólveig Lára Kristjánsdóttir freistaði þess að tryggja KA/Þór sigur gegn ÍBV í lok leiks liðanna í Olís-deildinni um helgina, en leikurinn fór 21-21. Sólveig tók aukakast af löngu færi á lokasekúndunni, og venju samkvæmt stilltu Eyjakonur sér upp í varnarvegg fyrir framan hana.

„Þetta er óviljaverk og bara klaufalegt. Hún á bara að bomba þessu yfir þær, frekar en að bomba í greyið Birnu,“ segir Sunneva Einarsdóttir, sérfræðingur Seinni bylgjunnar á Stöð 2 Sport.

Sólveig fékk rautt spjald en það breytir því ekki að Birna fékk þungt höfuðhögg:

„Þetta væri ég til í að sjá tekið út úr handbolta – þetta lokaaukakast. Mér finnst þetta stórhættulegt. Ég myndi frekar vilja sjá einhverja aðra lausn á þessu, frekar en að sjá menn standa þarna beint fyrir framan. Frekar þá frítt skot af 12-14 metra færi. Það er kannski ekki hægt að sleppa þessu því þá fáum við grófari brot,“ segir Sigurlaug.

„Í 90% tilvika endar boltinn í andlitinu á fólki,“ segir Sunneva en innslagið má sjá hér að neðan.

„Það er enginn að reyna að skjóta í höfuðið á neinum en þetta er náttúrulega hræðilegt og ég vona að það sé bara í lagi með Birnu eftir þetta, því þetta er stutt færi og hún neglir í hana. Þetta getur orðið mjög alvarlegt,“ segir Sigurlaug.

Klippa: Seinni bylgjan - Fékk aukakast í andlitið


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.