Fótbolti

Áhorfendur leyfðir að nýju í þýska boltanum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þýskalandsmeistarar Bayern fá að spila fyrir framan áhorfendur um helgina.
Þýskalandsmeistarar Bayern fá að spila fyrir framan áhorfendur um helgina. Vísir/Getty

Áhorfendur verða leyfðir á leikjum þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu um helgina. Er Þýskaland fyrst af stóru deildum Evrópu til að leyfa áhorfendur í einhverju magni. 

Það verða þó miklar takmarkanir á fjölda.

Nú má hvert lið nýta 20% sæta á velli sínum. Liðin verða að halda sig við fyrir fram ákveðnar reglur um fjarlægð milli einstaklinga sem og almennar sóttvarnir. Ekkert áfengi verður til sölu á leikjunum og aðeins fá stuðningsmenn heimaliða að mæta. Þá verður stranglega bannað að framselja miðana.

Þessar reglur munu gilda til loka október. Þá verður staðan tekin og ákveðið hvort hægt sé að fjölga á völlum landsins.

Komi í ljós að vellirnir séu miðpunktur nýrra smita – 35 tilvik á hverja 100 þúsund íbúa á einni viku – þá verða engir stuðningsmenn leyfðir.

Reglurnar taka strax gildi og eiga við um allar atvinnumannadeildir í Þýskalandi. Virðist það sama gilda um leiki innandyra sem utan. Reglubreytingin kemur sér vel fyrir lið þýsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu en deildin fer af stað nú um helgina.

Þar eiga Bayern München titil að verja og mæta þeir Schalke 04 á heimavelli. Allianz Arena, heimavöllur Bayern, tekur 75 þúsund manns í sæti svo væntanlega má reikna með að Bæjarar selji alla þá 15 þúsund miða sem þeir mega fyrir leikinn.

ESPN greindi frá.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.