Heimsmarkmiðin

Kórónaveiran veikir stöðu kvenna

„Neyð ýtir alltaf undir kynjamismunun,“ segir Maria Holtsberg, sérfræðingur í mannréttindum og neyð hjá UN Women í Asíu og Kyrrahafseyjum. Hún segir jafnframt að kórónaveirufaraldurinn hafi ólík áhrif á konur og karla í Asíu og veiki stöðu kvenna á mörgum vígstöðvum.

Fulltrúar UN Women í Asíu segja það staðreynd að í neyðaraðstæðum séu konur berskjaldaðri en nokkru sinni fyrir ofbeldi. Á meðan helsta verkefni lögreglu hafi verið að halda faraldrinum í skefjum hafa tilkynningar og fyrirspurnir þolenda vegna heimilisofbeldis til hjálparsamtaka í Peking þrefaldast eftir að sóttkví hófst. „Skerðing á þjónustu við konur, svo sem almennar heilsufarsskoðanir og þjónusta við konur sem verða fyrir ofbeldi, er okkur mikið áhyggjuefni“, segir Holtsberg.

Samkvæmt UN Women í Asíu hefur faraldurinn hvað mest efnahagsleg áhrif á konur. Víða í Austur-Asíu bera konur þyngstu byrði ólaunaðra umönnunarstarfa og eftir að skólar lokuðu hefur það haft viðamikil áhrif á stöðu kvenna á atvinnumarkaði, sem komast síður til vinnu en makar þeirra. Konur frá Filipseyjum eru meirihluti þeirra sem vinna þjónustustörf en á meðan neytendur halda að sér höndum geta þær ekki unnið og þar af leiðandi ekki sent tekjur til fjölskyldna sinna. Þá verða konur á tímakaupi, eigendur smárra fyrirtækja og konur sem starfa í þeim verksmiðjum sem reiða sig á hráefni frá Kína einnig fyrir miklu tekjutapi.

Um 400 þúsund konur frá Filipseyjum og Indónesíu starfa við heimilisstörf í Hong Kong. Staða þeirra gagnvart vinnuveitanda er mjög veik. Þær eru hvattar af yfirvöldum til að halda sig innandyra á frídögum sínum vegna smithættu og lenda því oft í að vinna ógreidda vinnu fyrir vinnuveitandann, eða er hótað uppsögn vinni þær ekki þá daga. Heilsu þeirra er einnig ógnað ef vinnuveitendur þeirra gefa þeim ekki handspritt og andlitsgrímur, en verð á þessum vörum hefur farið upp úr öllu valdi og ekki á færi þeirra að kaupa þær sjálfar. Síðast en ekki síst eru konur 70% þeirra sem starfa í framlínunni í Kína um þessar mundir bæði innan heilbrigðis- og félagsþjónustunnar.

Neyð hefur ólík áhrif á líf kvenna og karlmanna

Mikilvægt er að þær stofnanir og aðilar sem veita mannúðaraðstoð starfi eftir kynjamiðuðum ferlum og átti sig á að neyðarástandið hefur ólík áhrif á líf kvenna og karlmanna. „Það er mikilvægt að mismunandi þarfir kvenna og karla verði hafðar í huga í komandi bataferli,“ segir Mohammad Naciri, svæðisstjóri UN Women í Asíu og í Kyrrahafseyjum en konum er oftar en ekki haldið utan við ákvarðanatökur í neyð.

Kórónaveiran ýtir undir kynjamismunun í Asíu, heimilisofbeldi eykst í sóttkvíum og tekjumöguleikar kvenna skerðast frekar en karla. Eitt af mikilvægustu verkefnum UN Women er að tryggja að raddir kvenna í neyð heyrist, taka mið af þörfum þeirra og kvenmiða neyðaraðstoð.

Vefur UN Women á Íslandi

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.