Innlent

Umsóknir um skert starfshlutfall streyma inn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Húsnæði Vinnumálastofnunar í Reykjavík. Stofnunin hefur einnig útibú á Hvammstanga þar sem umsóknir um fæðingarorlof eru afgreiddar svo dæmi sé tekið.
Húsnæði Vinnumálastofnunar í Reykjavík. Stofnunin hefur einnig útibú á Hvammstanga þar sem umsóknir um fæðingarorlof eru afgreiddar svo dæmi sé tekið. Vísir/Vilhelm

Fjögur þúsund umsóknir hafa borist Vinnumálastofnun á fyrstu fjórum klukkustundunum síðan hægt var að sækja um úrræðið á vef stofnunarinnar í hádeginu.

Alþingi samþykkti á föstudag frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um um rétt til greiðslu at­vinnu­leys­is­bóta sam­hliða minnkuðu starfs­hlut­falli vegna tíma­bund­ins sam­drátt­ar í starf­semi vinnu­veit­enda, svokallaða hlutastarfaleið.

Vinnumálastofnun hefur umsjón með umsóknum um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls og hafa um 500 umsóknir bæst við á hverjum klukkutíma frá því opnað var fyrir umsóknir í hádeginu. Alls voru umsóknirnar í kringum fjögur þúsund um klukkan fjögur síðdegis að því er segir á vef Stjórnarráðsins.

Samkvæmt lögunum getur fólk sem verið hefur í fullu starfi farið niður í allt að 25 prósenta starfshlutfall og átt rétt á bótum. Þeir sem eru með 400 þúsund eða minna í mánaðarlaun fá fullar bætur á móti skertu hlutfalli í vinnu. Sótt er um í gegnum mínar síður á heimasíðu Vinnumálastofnunar.

Stefnt er að því að greiða fyrstu greiðslurnar 31. mars. Einhverjar greiðslur geta hins vegar dregist fram í byrjun apríl. Allar umsóknir gilda afturvirkt frá 15. mars síðastliðnum.

„Markmiðið með lagasetningunni er einfalt; stuðla að því að vinnuveitendur haldi ráðningarsambandi við starfsmenn sína eins og frekast er unnt. Þessi miklu viðbrögð sýna að þessar aðgerðir eru að virka og við ætlum að fara í gegnum þetta saman og að hér verði kröftug viðspyrna í þessum tímabundna ástandi sem faraldurinn er,” segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

Undir þetta tekur Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. 

„Það er fagnaðarefni hversu hratt hefur gengið að vinna þetta verkefni og það hefur verið mikið álag á vef Vinnumálastofnunar frá því opnuðum fyrir umsóknir í dag. Umsóknirnar sem okkur hafa borist í dag eru fjölmargar og við hvetjum bæði atvinnurekendur og launafólk til þess að kynna sér þessi úrræði vel.”


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.