Innlent

Þrjú hundruð Íslendingar á leiðinni heim

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins aðstoðar fólk við að komast heim til Íslands.
Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins aðstoðar fólk við að komast heim til Íslands. Vísir/Vilhelm

Þrjú hundruð Íslendingar eru á heimleið með Icelandair næstu daga. Utanríkisráðuneytið aðstoðar hluta hópsins vegna þess að víða er búið að fella niður flug og á í samstarfi við önnur ríki við að koma fólki heim.

Forstjóri Icelandair segir að ennþá sé hægt að bóka flug frá Lundúnum, Boston og Stokkhólmi. Eftirspurnin sé ekki mikil.

Íslensk stjórnvöld hyggjast greiða upp tap Icelandair sem hlýst af því að halda flugi gangandi tvo daga í viku til Boston, Lundúna eða Stokkhólms til 15. apríl. 

Fáir ferðast þessa dagana og hefur flugvélum verið lagt víða um heim vegna Covid-19.Vísir/Vilhelm

Gert er ráð fyrir því að ríkið greiði allt að hundrað milljónir til flugfélagsins. Þetta er gert til að tryggja lágmarkssamgöngur til og frá landinu.

Lítið hægt að vinna með öðrum flugfélögum þessa dagana

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að félagið bjóði upp á ferðir til Bandaríkjanna og Evrópu alla daga vikunnar og ennþá sé til nóg af sætum.

„Þær eru ekki að fyllast og það er enn þá hægt að bóka. Við erum að reyna að halda tengingum daglega, Lundúnum, Stokkhólmi og Boston en það er ennþá laust í vélarnar. Eftirspurnin er ekki mikil,“ segir Bogi Nils.

Bogi Nils Bogason, forstjóri IcelandairVísir/Vilhelm

Víða hefur flug nánast lagst af eða er afar takmarkað. Bogi segir að þetta hafi áhrif á samvinnu flugfélaga varðandi tengiflug milli staða.

„Það hefur alltaf verið þannig í flugbransanum að flugfélög vinna mikið saman nú er svo lítið flogið það að það er lítið hægt að vinna með það þessa dagana,“ segir Bogi Nils.

300 Íslendingar á leiðinni heim

Íslendingar búsettir erlendis hafa getað skráð sig í gagnagrunn utanríkisráðuneytisins. 

María Mjöll Jónsdóttir deildarstjóri þar segir að haft hafi verið samband við um 2000 manns frá því skráningin hófst. Nú séu um 300 Íslendingar á leiðinni heim.

María Mjöll Jónsdóttir á upplýsingafundi almannavarna á dögunum.Vísir/Vilhelm

„Sumir þurfa á meiri aðstoð að halda við að finna flug heim en aðrir. Þau ríki sem að eru meira og minna lokuð þar eigum við í mestum vandræðum með að leiðbeina fólki um hvernig það eigi að komast heim. Þar erum við í norrænu samstarfi og við Evrópusambandsríkin. Það er mikil óvissa með áframhaldandi flug næstu vikur og þes vegna eru bæði Evrópuríkin og Norrænuríkin að vinna að því að ná sínu fólki heim.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.