Fótbolti

Stór UEFA-fundur um dagsetningar leikja og samningamál leikmanna | Mótanefnd KSÍ bíður átekta

Sindri Sverrisson skrifar
Aleksander Ceferin er forseti UEFA.
Aleksander Ceferin er forseti UEFA. vísir/getty

Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, mun á miðvikudaginn kynna hugmyndir tveggja starfshópa varðandi það hvenær leikir í mótum á vegum sambandsins verði spilaðir.

UEFA hélt fjarfund fyrir tveimur vikum þar sem fulltrúar allra 55 aðildarsambanda UEFA, þar á meðal Guðni Bergsson formaður KSÍ, ræddu málin. Niðurstaða þess fundar var meðal annars sú að EM karla í fótbolta var fært til um eitt ár, til sumarsins 2021, og að umspilið sem Ísland tekur þátt í færi fram í júní. Ástæðan er auðvitað kórónuveirufaraldurinn.

Á fundinum á miðvikudag, þar sem að fulltrúar allra aðildarsambandanna eru boðaðir, gæti skýrst hvort að landsleikir fari fram í júní eða ekki, og hvort Evrópukeppnir íslenskra félagsliða hefjist 7. júlí líkt og áformað var. Þetta kemur fram í tölvupósti sem mótanefnd KSÍ hefur sent aðildarfélögum sínum. Þar segir að mótanefndin muni funda í vikunni og meta framhaldið í kjölfar væntanlegra upplýsinga frá UEFA.

Mótanefnd KSÍ segir að þar sem að enn ríki mikil óvissa með framhald samkomubanns á Íslandi sé ekki hægt að gefa út nákvæma dagsetningu á því hvenær keppin geti hafist í einstökum mótum á vegum sambandsins. KSÍ reyni að vera sem best tilbúið þegar íslensk yfirvöld heimili keppni að nýju.

Á fundi UEFA verður ekki aðeins farið yfir leikjamál landsliða og félagsliða, og hvernig starfshópar sjá fyrir sér að hægt verði að ljúka tímabilinu, heldur verður einnig farið yfir stöðuna varðandi samningamál leikmanna og félagaskiptamál, og mögulegar breytingar sem FIFA kann að gera í þeim efnum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.