Sport

Sara Sigmundsdóttir með „minime“ á heiðursæfingu fyrir hetjurnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmunsdóttir og Erla á æfingunni en þessi mynd er af Instagram síðu Söru sem er með 1,7 milljón fylgjendur.
Sara Sigmunsdóttir og Erla á æfingunni en þessi mynd er af Instagram síðu Söru sem er með 1,7 milljón fylgjendur. Skjámynd/Instagram

Íslenska CrossFit drottningin Sara Sigmunsdóttir lét ekki sitt eftir liggja þegar CrossFit heimurinn sameinaðist og gerði æfingu til heiðurs fólksins í heilbrigðiskerfinu sem stendur í fremstu víglínu í baráttunni við kórónuveiruna.

CrossFit fólkið gerði svokallaða „NHS hero wod“ eða æfingu fyrir hetjurnar úr heilbrigðiskerfinu. Það er erfitt ástand á sjúkrahúsum heimsins þessa dagana enda álagið mikið vegna COVID-19 og læknar og hjúkrunarfólk að leggja líf sitt í hættu í því að bjarga öðrum sem eru langt leidd af COVID-19 sjúkdómnum.

Sara Sigmundsdóttir var klár í slaginn og gerði þessa „NHS hero wod“ með glæsibrag.

Sara mætti líka til leiks með ungar aðstoðarkonur eins og hún sagði frá á Instagram síðu sinni eins og sjá má hér fyrir neðan.

Sara var nefnilega með þær Erlu og Thelmu með sér en í tilefni af afmæli Erlu þá var hún klædd alveg eins og hetjan sín Sara Sigmundsdóttir.

„Æfingafötin okkar voru plönuð af því að þetta var afmælisdagur Erlu. Thelma fær sinn æfingabúning á sínum afmælisdegi,“ skrifaði Sara við myndirnar.

Þar má líka sjá litlu stelpurnar reyna að apa eftir Söru í æfingasalnum.

Sara sér líka húmorinn í þessu og merkir færslu sína meðal annars með „minime“ en þar vísar hún í frægan karakter úr myndunum um Austin Powers.

Það er ljóst að þær Erla og Thelma eiga sér flotta fyrirmynd í Söru Sigmundsdóttur sem var búin að eiga frábær CrossFit tímabil þegar allt stoppaði vegna kórónuveirunnar.

Mótshaldarar hafa verið að fresta hverju CrossFit mótinu á fætur öðru að undanförnu og það er mikil óvissa með framhaldið. Heimsleikarnir í ágúst gætu líka orðið fórnarlamb kórónuveirunnar dragist ástandið langt fram á sumar.

Það eru samt enn fjórir mánuðir þangað til og vonandi gengur kórónuveirufaraldurinn yfir á þeim tíma.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.