Fótbolti

Eigandi Brescia segir að liðið muni gefa alla leiki ef tímabilið hefst aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Massimo Cellino ásamt Marion Balotelli sem gekk til liðs við Brescia síðasta sumar.
Massimo Cellino ásamt Marion Balotelli sem gekk til liðs við Brescia síðasta sumar. vísir/getty

Massimo Cellino, eigandi ítalska úrvalsdeildarliðsins Brescia, sem Birkir Bjarnason leikur með, segir að liðið muni gefa alla leiki ef keppni í ítölsku deildinni hefst aftur í vetur.

Líkt og alls staðar í Evrópu, nema í Hvíta-Rússlandi, hefur keppni í ítalska fótboltanum verið frestað vegna kórónuveirufaraldursins. Ítalía hefur orðið sérstaklega illa úti vegna kórónuveirunnar en rúmlega 13.000 manns hafa látist af völdum hennar þar í landi.

Ekki liggur fyrir hvenær eða hvort keppni í ítölsku úrvalsdeildinni tímabilið 2019-20 lýkur. Cellino segir að það væri glapræði að hefja leik aftur.

„Við erum hætt. Ekkert lið snýr aftur til baka eins og það var, leikirnir yrðu að fara fram fyrir luktum dyrum og þetta myndi stefna heilsu leikmannanna í hættu,“ sagði Cellino við Gazetta dello Sport.

„Það væri brjálæði að byrja aftur. Ef þeir neyða okkur til þess gefum við alla leiki sem eftir eru af virðingu við íbúa Brescia og þá sem hafa látist af völdum veirunnar,“ bætti Cellino við.

Hann hefur verið sakaður um að hugsa fyrst og fremst um eigin hagsmuni en Brescia er á botni ítölsku deildarinnar, níu stigum frá öruggu sæti. Brescia myndi því augljóslega græða á því ef tímabilið yrði flautað af og þurrkað út ef svo má segja.

Birkir hefur leikið fimm leiki fyrir Brescia síðan hann kom til liðsins í janúar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.