Körfubolti

Jón Arnór segir Brenton besta út­lendinginn sem spilað hefur á Ís­landi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Arnór var afar hrifinn af körfuboltakappanum Brenton Birmingham rétt eins og fleiri hér á landi.
Jón Arnór var afar hrifinn af körfuboltakappanum Brenton Birmingham rétt eins og fleiri hér á landi. vísir/getty/samsett

Jón Arnór Stefánsson segir að Brenton Birmingham sé besti erlendi leikmaðurinn sem hefur spilað hér á Íslandi. Brenton er í dag kominn með íslenskan ríkisborgararétt en Jón Arnór segir að hann hafi verið afar erfiðan viðureignar.

Brenton kom fyrst til Íslands árið 1998 og lék lengst af með Njarðvík en einnig lék hann þrjú tímabil með Grindavík. Hann hefur nánast dvalið hér á landi síðan 1998 með stuttu stoppi hjá Rueil Pro Basket í Frakklandi og London Towers í Bretlandi árin 2002 og 2003.

Jón Arnór var gestur í Sportinu í kvöld sem var sýnt á Stöð 2 Sport í gærkvöldi en þar var hann beðinn um að velja erfiðustu andstæðinganna sína á ferlinum. Þar var Brenton á lista Jóns.

„Ég þurfti að dekka þetta kvikindi alltaf þegar ég var að spila á móti honum. Hann var rosalega svona „hurky jurky“. Hvernig ætlaru að þýða það? Hann leit út fyrir að vera hægur en allt í einu fer hann af stað með fintu. Alveg ótrúlega erfitt að halda sér fyrir framan hann í vörninni,“ sagði Jón og hélt áfram að hrósa Brenton:

„Svo gat hann skotið þriggja stiga skotum og mikill íþróttamaður. Hann var svo frábær varnarmaður. Hann var að dekka mig þá varnarlega og maður átti erfitt með það.“

Brenton er kominn með íslenskan ríkisborgararétt í dag en aðspurður hvort að þetta væri besti erlendi leikmaðurinn sem hér hefur leikið svaraði Jón:

„Já. Hiklaust. Þeir hafa verið nokkrir góðir en Brenton er klárlega á mínum lista sá besti sem hefur spilað í deildinni allra tíma.“

Brenton átti frábæran feril á Íslandi. Hann varð þrisvar sinnum Íslandsmeistari og fjórum sinnum bikarmeistari. Hann var valinn í úrvalsliðið í þrígang og árið 2006 var hann meðal annars valinn leikmaður ársins.

Klippa: Sportið í kvöld - Jón Arnór um Brenton

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.