Erlent

Demókratar fresta landsfundi sínum vegna faraldursins

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá landsfundi demókrata í Fíladelfíu árið 2016. Slíkir fundir eru mikið sjónarspil og fá frambjóðendur flokkana yfirleitt byr undir báða vængi í skoðanakönnunum, að minnsta kosti fyrstu vikurnar eftir fundina.
Frá landsfundi demókrata í Fíladelfíu árið 2016. Slíkir fundir eru mikið sjónarspil og fá frambjóðendur flokkana yfirleitt byr undir báða vængi í skoðanakönnunum, að minnsta kosti fyrstu vikurnar eftir fundina. AP/John Locher

Landsfundi Demókrataflokksins þar sem velja á forsetaframbjóðanda flokksins verður frestað fram í miðjan ágúst til að auka líkurnar á að hægt verði að halda hann með hefðbundnu sniði. Upphaflega átti fundurinn að fara fram í Milwaukee í júlí.

„Við núverandi óvissuástand teljum við skynsamlegustu nálgunina að taka aukinn tíma í að fylgjast með hvernig málin þróast svo við getum búið flokkinn sem best undir öruggan og árangursríkan landsfund,“ sagði Joe Solmonese, formaður landsfundarnefndar Demókrataflokksins með vísan í kórónuveiruheimsfaraldurinn í yfirlýsingu í dag.

Hafi faraldurinn rénað nægilega fer landsfundurinn því fram í viku 17. ágúst, að sögn Washington Post. Joe Biden, fyrrverandi varaforseti sem leiðir forval Demókrataflokksins, hefur lýst fullum stuðningi við að fresta landsfundinum.

Donald Trump forseti og Repúblikanaflokkur hans hefur sagt að stefnt sé að landsfundi flokksins með óbreyttu sniði 24. ágúst. Trump útilokaði að fundinum yrði aflýst í síðustu viku.

Venju samkvæmt heldur sá flokkur sem heldur ekki forsetaembætti sínu landsfund sinn fyrst. Leiðtogar demókrata eru sagðir hafa áhyggjur af því að landsfundi þeirra yrði aflýst en að repúblikanar gætu haldið sinn. Það gæti gefið Trump forseta forskot í kosningabaráttunni en frambjóðendur flokkanna fá yfirleitt byr í seglin í skoðanakönnunum vikurnar eftir landsfund.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.